
Margrét Sveinbjörnsdóttir hefur tekið við sem sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs hjá dk hugbúnaði.
Margrét hefur viðamikla þekkingu á viðskiptalausnum, þjónustu, ráðgjöf og sölu. Hún hefur unnið þvert á fyrirtækið þar sem áherslan er ávallt að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti. Hún hóf fyrst störf hjá dk hugbúnaði árið 2002 til ársins 2003 og hefur starfað samfleitt hjá félaginu frá árinu 2007. Fyrst sem ráðgjafi á þjónustusviði og síðar sem viðskiptaþróunarstjóri áður en hún tók við sem sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs. Margrét hefur lokið B.Sc. námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.
“Fyrirtækið hefur gengið í gegnum þó nokkrar breytingar síðustu misseri og framundan eru stór og spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við með starfsmönnum fyrirtækisins. Nú í ár fagnar dk hugbúnaður 25 ára afmæli sínu og munum við fagna þeim tímamótum með starfsmönnum og viðskiptavinum. Ég hlakka mikið til að nýta mína reynslu og þekkingu á þeirri vegferð sem framundan er hjá fyrirtækinu, Framtíðin er björt og mikil tækifæri fyrir viðskiptavini dk að nýta lausnir okkar til að takast á við áskoranirnar sem við stöndum öll frammi fyrir í stafrænum veruleika.” segir Margrét.
Hulda Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri dk: „Margrét er með frábæra reynslu og þekkingu sem ég er ekki í nokkrum vafa um að eigi eftir að styrkja okkur enn frekar í þeim verkefnum sem framundan eru. Hún er öflugur og kraftmikill leiðtogi og reynsla hennar nýtist vel.“
dk hugbúnaður hefur selt einn vinsælasta viðskiptahugbúnað landsins í aldarfjórðung. Alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi, sem er þróað á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður og er leiðandi á sínu sviði fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Fyrirtæki sem nota dk viðskiptahugbúnaðinn eru úr flestum atvinnugreinum og eru nú um sjö þúsund talsins og fjölgar jafnt og þétt. Hjá dk hugbúnaði starfa rúmlega 60 manns við hugbúnaðargerð og þjónustu.